IPN-veiran sem greindist í laxi í sjókví Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði nýverið er ekki af þeirri gerð sem veldur sjúkdómi í laxi, þetta sýna niðurstöður raðgreiningar á veirunni. Matvælastofnun, MAST, sendi frá sér tilkynningu um þetta í dag. Þar segir einnig að einstaka afbrigði IPN-veirunnar geti valdið tjóni í laxeldi, einkum í ferskvatnseldi á seiðum. Meinvirkni sé mismunandi milli arfgerða og megi greina á milli þeirra með raðgreiningu erfðaefnis.

Veiran var upphaflega greind á Keldum og síðan raðgreind á rannsóknastofu Evrópusambandsins í veirusjúkdómum. IPN hefur ekki fundist í seiðaeldisstöðvum fyrirtækisins. Því er langlíklegast að veiran hafi borist úr umhverfinu, en hún er útbreidd í vatna og sjávardýrum um allan heim, bæði í eldi og villtu umhverfi.

Jens Garðar Helgason, forstjóri Laxa: „Þetta eru góð tíðindi fyrir okkur hjá Löxum og gott að fá það staðfest að veiran valdi ekki sjúkdómi í laxi. Aðgæsla og eftirtekt starfsmanna varð til þess að IPN greindist. Það staðfestir að vöktun Laxa virkar sem skyldi og sýnir fram á mikilvægi þess að hafa hana í góðu lagi.“

Nánari upplýsingar veitir Jens Garðar Helgason, forstjóri Laxa. Netfang: jens@laxar.is