In Fréttir

Vegna til tilkynningar Matvælastofnunnar um að IPN veira hafi greinst í laxi úr sjókví Laxa fiskeldis vill fyrirtækið árétta að þó svo að veiran hafi greinst hefur engin sjúkdómur komið upp. Veiran hefur engin áhrif á velferð laxins né gæði afurða, hún er skaðlaus mönnum og berst ekki með fiskafurðum eins og fram kemur í tilkynningu Matvælastofnunnar.

Mjög vel er fylgst með velferð fiska hjá Löxum en veiran greindist við innra eftirlit og vöktun Laxa og var Matvælastofnun tilkynnt um atvikið í samræmi við þar að lútandi reglur.

IPN hefur áður verið staðfest á Íslandi, en það var í lúðu fyrir 20 árum. Afföll eru algengust í eldi smáseiða í ferskvatni og í stálpuðum seiðum sem flutt eru smituð úr seiðastöð í sjókvíar. Þrátt fyrir ítarlega rannsókn, hefur IPN ekki fundist í seiðaeldisstöðvum fyrirtækisins. Því er langlíklegast að veiran hafi borist úr umhverfinu, en IPN er útbreidd í vatna og sjávardýrum um allan heim, bæði í eldi og villtu umhverfi. 

Í varúðarskyni hefur Matvælastofnun sett dreifingarbann á starfsstöð fyrirtækisins að Bjargi í Reyðarfirði og mun það gilda þar til slátrað hefur verið upp úr sjókvíunum. Rétt er að geta þess að IPN fannst einungis í einni kví af 18 sem fyrirtækið er með úti. Greining hennar staðfestir að vöktun Laxa virkar eins og skyldi og sýnir fram á mikilvægi þess að hafa vöktun í góðu lagi til að fyrirbyggja IPN í eldi, einkum klak og seiðastöðvum.

Laxar munu fylgjast með framvindu mála í samráði við MAST.

Nánari upplýsingar veitir Jens Garðar Helgason, forstjóri Laxa.

Netfang: jens@laxar.is

Sími: 8994348.